Messur og kynning á starfi Gideonfélagsins

5.2.2018

Sunnudagur 11. febrúar sunnudagur í föstuinngangi

Barnamessa sunnudag kl. 11:00 Fjölbreytt tónlist og fræðandi starf fyrir börnin. Hreiðar Örn, Ragnar Bjarni, Jónas Þórir og Pálmi leiða samveruna. Foreldrar og afar og ömmur hvött til þátttöku með börnunum.

 

Guðsþjónusta kl. 14:00

Ræðumaður verður Páll Skaftason sem ásamt Gideon félögum verður með kynningu á starfi félagsins. Kór Bústaðakirkju syngur, Jónas Þórir við hljóðfærið. Messuþjónar aðstoða Messuþjónar aðstoða. Prestur sr. Pálmi Matthíasson. Heitt á könnunni eftir messu.

Allir hjartanlega velkomnir.

 

Fyrri ritningarlesturinn er úr Jesaja 52. kafla versum 13 – 15.

 

Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.
Þannig hljóðar hið heilaga orð.  / Guði sé þakkargjörð.

 

Síðari ritningarlesturinn er úr fyrra I Pétursbréfi 3. kafla versum 18 – 22.


Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.  / Dýrð sé þér Drottinn.

 

Guðspjall dagsins er úr Matteusi 3. kafla versum 13 – 17.

Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall. / Lof sé þér Kristur.