Byggingarsaga

 

"Fyrsta sunnudag í aðventu 1971 var Bústaðakirkja vígð. Hér er úrdráttur úr byggingarsögu kirkjunnar eins og hún var við vígsluna. 
 
Sóknarnefnd Bústaðasóknar ákvað 1964 að byggja kirkju og safnaðarheimili svo fljótt sem við yrði komið. Fengin var lóð úr landi Áshóls, norðan Bústaðavegar og austan Tunguvegar. Lóðin liggur í fallegri brekku mót suðri, niður Fossvogsdal. Leitað var til Teiknistofu húsameistara ríkisins, sem fól verkið þáverandi starfsmanni sínum, arkitektinum Helga Hjálmarssyni. Var fyrsta skóflustungan tekin af sóknarprestinum, séra Ólafi Skúlasyni við hátíðlega athöfn 7. maí 1966. 
 
Síðan hefur á hverju ári verið unnið í áföngum, eftir því sem mögulegt hefur verið vegna fjármagns. Strax í upphafi var sóknarnefnd einhuga um að steypa upp og ganga frá allri byggingunni að utan. Árið 1969 var síðan ákveðið að ljúka sem fyrsta áfanga kirkjuskipi, forkirkju, andyri og snyrtiherbergjum ásamt safnaðarsal og kirkjuvarðarherbergi. Myndast hér einnig bráðabirgðaaðstaða fyrir prest safnaðarins. 
 
Þetta var mikil höfuðnauðsyn, þar sem sóknin hafði þrefaldast að stærð, og aðstaða prestsins mjög erfið við að halda uppi eðlilegu safnaðarstarfi og kirkjulífi. Gólfflötur neðri hæðar er um 640 ferm. Hæðin með sönglofti um 1.040 ferm. Mest lofthæð er 12,5 m., en í kirkjuskipi miðju 9 metrar. Teknir verða í notkun nú í vetur 500 ferm. eða 2.600 rúmmetrar, en byggingin öll er 6.200 rúmmetrar. Byggingarnefnd skipa nú Ottó A. Michelsen, formaður, og séra Ólafur Skúlason sóknarprestur sem hafa verið frá upphafi og Sveinn Guðmundsson húsgagnameistari. 
 
Öllum þeim sem gert hafa það mögulegt að reisa slíka kirkju ber að þakka. 
Gjafirnar eru margar og miklar, og gefendur eru fjölmargir. Sé þeim öllum 
endurgoldið í þeim anda, sem heitið er."