Guðni Þ. Guðmundsson

 

Guðni Þ. Guðmundsson, organisti 
Guðni Þórarinn Guðmundsson fæddist 6. október 1948 í Vestmannaeyjum. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 13. ágúst 2000. Hann var sonur hjónanna Guðmundar Hróbjartssonar skósmiðs í Vestmannaeyjum og Þórhildar Guðnadóttur. Þeirra börn auk Guðna eru Guðrún (látin), Halldóra, Helena Björg, Konráð, Sesselja (látin) og Guðmundur Lárus. 
 
Guðni lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1965. Að því loknu fór hann til Reykjavíkur og stundaði nám við Tónlistaskóla Reykjavíkur og lauk þaðan tónmenntakennaraprófi árið 1969. 
 
Haustið 1969 hóf Guðni nám við Det Kongelige danske musikkonservatorium. Hann lauk kantor prófi árið 1971 og síðan meira prófi á orgel vorið 1976. Samhliða náminu í tónlistarháskólanum stundaði hann nám í trompetleik og instrumentation. 
 
Guðni vann alla tíð með náminu og spilaði á hinum ýmsu stöðum. Hann vann einnig í 5 ár sem organisti í Vestre fangelsinu í Kaupmannahöfn. 
 
Guðni flutti til Íslands árið 1976 og starfaði í eitt ár sem organisti við Langholtskirkju og tók síðan við starfi organista í Bústaðakirkju árið 1977 og starfaði þar síðan. Hann kenndi við Tónlistarskólann í Hafnarfirði frá 1976. Guðni tók þátt í mörgum námskeiðum bæði hér heima og erlendis. 
 
Guðni giftist eftirlifandi konu sinni Elínu Heiðberg Lýðsdóttur 25. maí 1969. Synir þeirra eru Ólafur Magnús f. 3. janúar 1975 og Halldór Örn f. 10. júlí 1981. 
-------------------------------------------------------------------------------- 
 
 
Sunnudagsmorgunn, síminn hringir snemma. Í símanum er sr. Pálmi, hann færir mér þær sorgarfregnir að Guðni organisti sé látinn. 
 
Þessi hressi og skemmtilegi drengur látinn. Það er erfitt að trúa því að ég eigi ekki eftir að heyra oftar í Guðna. Undanfarin ár höfum við talað saman í síma nánast á hverjum virkum degi og stundum oft á dag. Þessi símtöl voru oftast í upphafi hvers vinnudags, laust fyrir kl. 8:00 á morgnana. 
 
Guðni var vanur að taka daginn snemma og þurftum við ósjaldan að fara yfir verkefni dagsins. Þegar því var lokið var spjallað á léttu nótunum og hann kvaddi gjarnan með orðunum, blessaður vinur! Ég hef nú síðustu daga velt því fyrir mér hversu mikla þýðingu þessi orð hafa, blessaður vinur. Þessi kveðja lýsti Guðna vini mínum vel. 
 
Síðustu símtölin voru á laugardagsmorguninn, mikið að gera hjá mínum manni í kirkjunni og vorum við að reyna að ljúka við verkefni sem við unnum saman að. Ég þurfti að koma við í Bústaðakirkju og nálgast þar bréf sem Guðni skildi þar eftir. Síðan ætluðum við að tala saman snemma á mánudagsmorguninn. Falleg kveðja sem fylgdi bréfinu var á dönsku og hljóðaði „Med venlig hilsen“. Þetta voru síðustu orð Guðna til mín að sinni. 
 
Fyrir tæpum fjórum árum tók ég við formennsku í sóknarnefnd Bústaðakirkju. Með okkur Guðna tókst strax gott samstarf og mörg voru málin sem þurfti að leysa. Guðni var góður drengur, ljúfur og hvers manns hugljúfi. Hann vann mikið, starf hans sem organisti í Bústaðakirkju var fjölbreytt, auk þess sem hann stjórnaði kirkjukórnum. Hann kom á fót bjöllusveit sem honum þótti mjög vænt um. Bjöllusveitin spilaði við ýmis tækifæri og nú síðast í Kaupmannahöfn í júní. Þar var leikið á aðalsviði Tívolísins og einnig voru tónleikar á Strikinu. Guðni starfaði einnig sem stundakennari við Tónlistarskólann í Hafnarfirði. 
 
Síðastliðið vor var ætlunin að Kirkjukór Bústaðakirkju færi í tónleikaferð til Vestmannaeyja. 
 
Því miður tókst okkur ekki að hrinda þeirri ferð í framkvæmd. Fyrir fáeinum dögum ræddum við Guðni fyrirhugaða heimsókn kirkjukórsins til Vestmannaeyja á haustdögum og var Guðni mjög spenntur fyrir ferðinni heim á æskuslóðirnar. Ætlunin var að halda þar tónleika og var Guðni tilbúinn með fínt prógramm eins og hann orðaði það. 
 
Sóknarnefnd og starfsfólk Bústaðakirkju þakkar Guðna frábært starf og góða viðkynningu í þau tæpu 25 ár sem hann hefur starfað við kirkjuna. 
 
Nú er komið að kveðjustund, góður vinur og samstarfsmaður kvaddur. Hann skilur eftir stórt skarð sem erfitt verður að fylla. En orð hans og athafnir hafa verið með þeim hætti að þær lifa áfram með okkur. Hlý orð og kveðjur, hvatning og snjallar lausnir ólíkra málefna.Við söknum öll Guðna og erum hrygg og hnípinn. En um leið munum við jákvæð hvatningarorð hans, þessa hressa og skemmtilega drengs sem átti grundvöll í trúnni, sem gefur okkur hina eilífu von. 
 
Megi algóður Guð blessa Ellu og drengina þeirra Ólaf Magnús og Halldór Örn. 
 
 
Ögmundur Kristinsson, 
Formaður sóknarnefndar Bústaðakirkju. 
 
Útför fór fram þriðjudaginn 22. ágúst 2000 frá Bústaðakirkju