Saga Reykjavíkurprófastsdæmis

Grein eftir sr. Maríu Ágústsdóttur

 
 
Árið 1940 var ákveðið með lögum að Kjalarnesprófastsdæmi skyldi skipt og stofnað nýtt prófastsdæmi. Þá varð Reykjavíkurprófastsdæmi til. Því var síðan skipt árið 1991 í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og vestra. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra nær yfir tíu prestaköll, frá Seltjarnarnesi að Reykjanesbraut og Fossvogsdal. Skrifstofa prófastsdæmisins er nú í Hallgrímskirkju.
Kirkja hefur staðið í Reykjavík frá því fljótlega eftir kristnitökuna og snemma risu kirkjur í Engey, í Nesi á Seltjarnarnesi, Viðey og Laugarnesi. Þær kirkjur voru allar formlega lagðar niður á ofanverðri 18. öld og sameinaðar Reykjavíkursókn, nema Viðeyjarkirkja, sem heyrði undir Mosfell í Kjalarnesprófastsdæmi til 1986, er hún varð eign Reykjavíkurborgar.
Mikil tímamót urðu með lögum frá 7. maí 1940, þar sem Reykjavík var skipt í 4-6 sóknir, sem vera skyldu sérstakt prófastsdæmi með dómprófasti. Í desember sama ár fóru fram prestskosningar og þjónuðu þá 6 prestar í 4 prestaköllum íbúum Reykjavíkur, alls 37.897 manns, sem áður höfðu notið þjónustu tveggja presta, auk fríkirkjuprestsins. Þessi prestaköll voru: Dómkirkjuprestakall, Halgrímsprestakall, Laugarnesprestakall og Nesprestakall.
Árið 1952 voru íbúar Reykjavíkur orðnir 58.761. Það ár voru stofnuð þrjú ný prestaköll með 4 sóknum; Bústaðaprestakall (skiptist í Bústaðasókn og Kópavogssókn), Háteigsprestakall og Langholtsprestakall. Tíu árum síðar, þegar íbúafjöldinn taldi 76.401, var ljóst að enn þurfti að fjölga, og árið 1964 voru Ás- og Grensásprestaköll stofnuð. Yngsti söfnuður, sem telst til Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, Seltjarnarnessöfnuður, var stofnaður 1974, og gerður að sérstöku prestakalli 1986.
 
Dómprófastar:
Sr. Friðrik Hallgrímsson 1940-1945
Sr. Bjarni Jónsson 1945-1951
Sr. Jón Auðuns 1951-1973
Sr. Óskar J. Þorláksson 1973-1976
Sr. Ólafur Skúlason 1976-1989
Sr. Guðmundur Þorsteinsson 1989-2000
Prófastar Reykjavíkurprófastsdæmis vestra:
Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson frá stofnun þess 1991
Sr. Ragnar Fjalar Lárusson leysti hann af 1994-1997
Héraðsprestar:
Sr. Ingólfur Guðmundsson 1991-1993 í báðum prófastsdæmunum; til 1996 í vestra
Sr. Gylfi Jónsson 1996-2000
Sr. María Ágústsdóttir leysti sr. Gylfa af 1998-1999; skipuð í embættið haustið 2000
Sr. Bára Friðriksdóttir 2004-2005 (í barnsburðarleyfi sr. Maríu)
Sr. Hans Markús Hafsteinsson, ráðinn í sérverkefni frá 2006
Skrifstofustjóri frá 1991:
Margrét Bragadóttir
 
María Ágústsdóttir tók saman með hliðsjón af riti Ástráðs Sigursteindórssonar: Reykjavíkurprófastsdæmi 1940 – 50 ára – 1990 Ágrip af sögu.