Bíómessa í Bústaðakirkju

19.2.2014
Charlton Heston og Keira Knightley koma við sögu í bíómessu sem verður í í Bústaðakirkju kl. 14 sunnudaginn 23. febrúar.  Messan verður helguð samspili Biblíu og bíómynda í gegnum tíðina. Myndbrot úr þekktum kvikmyndum verða fléttuð inn í messuna og sýnd dæmi um það hvernig Biblían hefur verið viðfangsefni og innblástur kvikmynda, sjónvarpsþátta og tónlistarmyndbanda frá upphafi kvikmyndagerðar til okkar tíma. Þennan sunnudag er Biblíudagurinn í þjóðkirkjunni og Bústaðakirkja leggur sitt af mörkum til að fjalla um Biblíuna með þessum hætti.
 
Sr. Árni Svanur Daníelsson þjónar fyrir altari og ætlar að ræða um áhrif kvikmynda og áhorf á þær í prédikuninni. Hann lumar líka á nokkrum góðum ráðum til allra sem vilja fá meira út úr bíóferðum og sjónvarpsáhorfi. Jónas Þórir, Matthías Stefánsson og Gunnar Óskarsson leika kvikmyndatónlist í messunni og hafa meðal annars ýjað að því að tónlist úr Indiana Jones, Stjörnustríði og Cinema Paradiso komi við sögu..
 
Messuþjónar aðstoð við bíósýningar, lestra og bænagjörð. Popp og kaffi verður í boði í safnaðarheimilinu að messu lokinni. Þetta er messa fyrir alla sem hafa áhuga á góðum bíómyndum. Þetta verður bæði fróðleg og skemmtileg messa og allir eru hjartanlega velkomnir.