Hver er sr. María?

23.9.2019

María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir María er fædd á Egilsstöðum 20. febrúar 1968, dóttir hjónanna Guðrúnar Láru Ásgeirsdóttur, húsmæðra- og bókasafnskennara, og Ágústar M. Sigurðssonar, prests og fræðimanns sem lést árið 2010. Frá fjögurra ára aldri ólst hún upp á Mælifelli í Skagafirði. Fimmtán ára flutti María til Kaupmannahafnar með foreldrum sínum og lauk dönsku stúdentsprófi þar átján ára. Hún útskrifaðist sem kandidat í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 með ágætiseinkunn og lauk prófi í uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla árið 1994. Tuttugu og fjögurra ára vígðist María til prestsþjónustu við Dómkirkjuna í Reykjavík og starfaði þar í fjögur ár sem barna- og æskulýðsprestur. Hún hefur þjónað innan Reykjavíkurprófastsdæmis vestra alla starfsævina, lengst sem héraðsprestur og hluti þjónustuteymis presta og djákna í Hallgrímskirkju, en einnig í afleysingum og vistaskiptum á Landspítalanum, í Háteigskirkju og á Biskupsstofu. Sem héraðsprestur tók hún m.a. þátt í að koma á fót messuhópum í prófastsdæminu með sr. Jóni Dalbú Hróbjartssyni prófasti. Þá hefur hún haldið fjölda námskeiða, einkum á vegum Starfs- og leikmannaskóla þjóðkirkjunnar. María hefur sinnt margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum, meðal annars sem formaður Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, um þriggja ára skeið. María varði doktorsritgerð sína frá Háskóla Íslands 1. nóvember 2016. Í ritgerðinni gerir hún grein fyrir rannsókn sinni á tengslum kristinna trúfélaga en María hefur verið í forystu fyrir Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga frá árinu 2000 og leiddi starf Alþjóðlegs bænadags kvenna á Íslandi í aldarfjórðung. Í september 2017 var María kölluð til þjónustu við Grensásprestakall tímabundið. Hún hefur verið skipuð í embætti prests í Fossvogsprestakalli frá 1. október 2019. Eiginmaður María er Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur í Seltjarnarnesprestakalli. Börn hennar eru fimm, Kolbeinn, nemi í dýralækningum í Ósló, Ragnhildur, BA í bókmenntafræði og blaðamaður á Morgunblaðinu, Guðný Lára, Guðrún María og Nína Björg en þær eru allar nemar í Foldaskóla. Áhugamál Maríu eru útivist og heilsurækt, bóklestur og tónlist. Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð, bækur og tímarit.