Messur sunnudaginn 24. nóvember, barnastarf kl. 11:00 og almenn messa kl. 14:00

18.11.2013

Messur sunnudaginn 24. nóvember

 

Barnamessa klukkan 11:00

Lífleg og gefandi samvera fyrir alla fjölskylduna.

Fræðsla söngur og lofgjörð.

 

Guðsþjónusta kl. 14:00

Frímúrarakórinn syngur undir stjórn  kantors Jónasar Þóris.

Þetta er  síðasti sunnudagur kirkjuársins og litur messuklæða er grænn.

Messuþjónar aðstoða og prestur er sr.Pálmi Matthíasson.

Molasopi og hressing eftir messu.

Allir hjartanlega velkomnir.

 

Fyrri ritningarlestur er úr Jobsbók 14. kafla versum1 -6

Maður, af konu fæddur,
lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.
Hann vex eins og blóm og visnar,
hverfur sem hvikull skuggi.
Samt hefurðu á honum vakandi auga
og kallar hann fyrir dóm þinn.
Hver getur leitt hreint af óhreinu?
Ekki nokkur maður.
Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

Þannig hljóðar hið heilaga orð

Síðari ritningarlestur er úr Öðru Pétursbréfi  3. kafla versum 8 –13

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Þannig hljóðar hið heilaga orð

 

Guðspjall dagsins er úr Jóhannesi  5. kafla versum 24-27

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.

Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall