Messur sunnudaginn 8. desember Söngleikur í barnamessu

3.12.2013

Barnamessa kl. 11:00  Barnakór bústaðakirkju flytur söngleikinn" Litla stúlkan með eldspýturnar"eftir Magnús Pétursson, gerður eftir sögu H.C. Andersen.  Stjórnandi Svava Kristín Ingólfsdóttir.  Gestakór í söngleiknum er Kammerkór unglinga. Píanóleikari er Jónas Þórir.

                    

Með helstu hlutverk fara Sandra Kristjánsdóttir, Unnur María Davíðsdóttir, Oddný Sjöfn Ríkarðsdóttir og Rut Rebekka Hjartardóttir.
       
Guðsþjónusta kl. 14:00 Kós Bústaðakirkju syngur, kantor Jónas Þórir við hljóðfærið, prestur sr. Pálmi Matthíasson. Messuþjónar aðstoða. Molasopi eftir messu.

 

Héru textar dagsins:

 

Lexía Jes 11.1-9:

Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans. Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins. Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna. Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

 

Pistill Rm 15.4-7, 13:

   Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri. En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists. Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar. Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.