Sjálfstyrkingarnámskeið

11.2.2014

Hjálpræðisherinn og Hjálparstarf kirkjunnar hafa skipulagt færni og sjálfstyrkingarnámskeið sem hefst mánudaginn 17. febrúar. "lærðu að gera það sjálf/ur" gæti allt eins verið yfriskrift námskeiðsins því markmiðið er að þátttakendur læri að nota saumavél til að gera við flíkur og breyta notuðu í nýtt. Matreiðslumaður kennir þátttakendum að nýta afganga og búa til veislumat fyrir lítinn aur. Þá mun rafvirki kenna þátttakendum að skipta um kló og setja upp ljósakrónur.

Að auki mun fjármálaráðgjafi halda fyrirlestur um heimilisbókahald og Sirrý mun fjalla um hvernig hægt er að styrkja sjálfsmyndina. Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi  mun hjálpa fólki við að finna leiðir til að þétta fjölskyldunetið.

Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar segir markmiðið með námskeiðinu að styðja og styrkja fólk með gleðina í fyrirrúmi þannig að það geti eflt styrk sinn og getu til að vinna sig út úr erfiðum aðstæðum.

Námskeiðið er einu sinni í viku og það hefst 17. febrúar kl 13:00 Það er haldið í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd. Aðgangur er ókeypis, takmarkaður fjöldi þátttakenda, fyrstur kemur fyrstur fær. Hafðu samband og bókaðu þig í síma 528-4400.

Barnagæsla á staðnum á meðan námskeiði stendur.