Blessun húsnæðis

 

Blessun húsnæðis
Blessun húsnæðis fer fram þegar fjölskylda eða söfnuður flytur inn í nýtt húsnæði. Sé það fjölskyldan getur hún sjálf annast athöfnina, eða hún kallar sóknarprestinn til, og styrkir þannig tengslin við söfnuðinn. 
Þessi athöfn verður æ algengari og presturinn oftast kallaður til. Þetta er helg stund, sem markar með nýjum og helgum hætti inngöngu á nýtt heimili. Einnig færist í vöxt, að blessun húsnæðis fari fram þegar fyrirtæki hefja nýja starfsemi eða flytja á nýjan stað. 
 
Athöfnin getur farið þannig fram, að þau sem viðstödd eru safnast saman, t.d. þar sem ætlunin er að geyma fjölskyldubiblíuna eða í opnu miðrými. Kveikt er á kertum. Sunginn, eða lesinn er sálmur úr sálmabók, t.d. 113 eða 114, en einnig bæna- og lofgjörðasálmar eða barnasálmar og söngvar þegar það á við. Þá er lesinn Davíðssálmur í víxllestri, t.d. sálmur 23 eða 36, sjá sálmabók nr. 762 og 772. Þá eru lesnir eftirtaldir ritningartextar: 5. Mós. 6.3-9, Matt. 7.24-29 og Lúk. 10.38-42 eða Lúk. 19.1-10. Þá er beðið bænar frá eigin brjósti eða eftirfarandi bænar: 
 
Biðjum: Vitja þú, Drottinn, þessa heimilis og bæg frá öllu sem skaða kann og tjóni valda. Lát helga engla þína búa hér og oss njóta verndar þinnar, friðar og blessunar til æviloka. Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Amen. 
Biðjum öll saman: Faðir vor..... 
 
Að lokum mælir sá/sú sem leiðir athöfnina: Friður sé með húsi þessu og öllum þeim sem hér búa. Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen. 
 
Þá er sunginn sálmur, t.d. nr 56, 701, 704, 725