Guðsþjónusta

 

Orðið guðsþjónusta hefur verið notað á Íslandi um opinbera athöfn í kirkju. Hugtakið er þó víðtækara en aðeins taki til athafnar í kirkju. Í stórum dráttummá tala um tvenns konar merkingu þess: 
Í fyrsta lagi er guðsþjónusta þjónusta við Guð. 
Í öðru lagi merkir hugtakið guðsþjónusta þjónustu Guðs við okkur. 
Þjónustan við Guð fer fyrst og fremst fram á vettvangi daglega lífsins. Á heimili, í skóla, í starfi og líka í frístundum þjónum við Guði. Líf allra manna er guðssamband og er það köllun hverrar mannveru að þjóna skapara sínum. Að vera Kristinn er fyrst og fremst að vera sér meðvitnadi um þessa köllun mannlífsins og raungera hana í lífi sínu. 
 
Þegar hugtakið guðsþjónusta er notað um athöfn í kirkju, er það notað í síðari merkingunni og á við þjónustu Guðs við okkur. Sú þjónusta fer fram í náðarmeðulunum og með henni styrkir Guð okkur í trúnni, eflir okkur í voninni og gerir okkur brennandi í kærleikanum. Er við höfum þegið blessun Drottins í guiðsþjónustunni, göngum við út til endurnýjaðrar þjónustu við Guð í nýrri viku. 
 
Er við komum til kirkju ekki aðeins sem þiggjendur, heldur og sem gjörendur og að því leyti sem þjónar Guðs. Sú þjónusta sem við látum Guði í té í guðsþjónustunni er iðrun og trú, lofgjörð og þökk. Játningu okkar, lof og þakkargjörð leggjum við fram fyrir Guð ásamt bænum okkar og fyrirbænum. Það er þjónusta okkar við Guð í kirkjunni og daglegri guðrækni. 
 
Guðsþjónustur geta verið margs konar: 
 
Messa
Messan er athöfn, þar sem saman fer prédikun orðsins og þjónusta við Guðs borð. Af sögulegum ástæðum fer ekki alltaf fram altarisganga innan lútherskra kirkna. Samt sem áður hefur orðið messa fests við höfuðguðsþjónustu safnaðarins á sunnudegi. 
 
Skírn 
Skírn er athöfn, þar sem Guð tekur einstakling að sér sem sitt barn í kirkju sinni. Skírn er guðsþjónusta, sem getur farið fram út af fyrir sig eða í tengslum við aðrar guðsþjonustur. 
 
Fjölskyldumessa
Fjölskyldumessa er messa sem fylgir hefðbundnu messuformi, en um leið haft frjálsara form við sálmasöng og ýmsa liði. 
 
Ferming
Ferming er guðsþjónusta, þar sem skírðu einstaklingur staðfestir með játningu sinni þá játningu, sem aðrir fóru með fyrir hans hönd á ungum aldri. 
 
Útför
Útför er sérstök tegund guðsþjónustu, þar sem látinn er kvaddur með bæn og þakkargjörð og falinn vernd Guðs í trú á sigur hins upprisna Drottins og frelsara. Bænin og orðið skipa öndvegið í útförinni og í þá þjónustu sækja aðstandendur sér styrk og huggun