Hjónavígsla

 

Hjónavígsla sem er sama athöfn og margir nefna giftingu getur farið fram sem kirkjuleg hjónavígsla eða borgaraleg, sem þá er framkvæmd hjá embætti sýslumanns. 
Kirkjuleg hjónavígsla fer lang oftast fram í kirkju. Hin veraldlega umgjörð hjónavígslunnar fer eftir lögum um Stofnun og slit hjúskapar. 
 
Hjónaefni skulu vera 18 ára eða eldri og ekki haldin sjúkdómum, sem valdið geta meinbugum á hjúskap. Ekkjur eða ekklar, sem stofna á ný til hjúskapar skulu hafa lokið búskiptum. Þá verða einstaklingar, sem áður hafa verið í hjónabandi að hafa gengið frá lögskilnaði. Skilnaður að borði og sæng nægir þar ekki. 
 
Tveir svaramenn skulu vera viðstaddir athöfnina og eru þeir vottar þess að hún hafi farið fram auk þess að vottfesta upplýsingar, sem hjónaefnin gefa sjálf. Hjónavígsluathöfn í kirkju getur verið með ólíkum hætti hvað varðar hina ytri umgjörð. 
 
Einfaldasta formið er þegar brúðhjón ganga saman til kirkju. Stundum er þessi athöfn án tónlistar en oftar kjósa brúðhjónin að organisti leiki brúðarmars. 
 
Það form, sem er algengast í dag er þegar brúðgumi og svaramaður hans mæta tímanlega til kirkju og sitja hægra megin, þegar horft er inn eftir kirkjunni. Þeir rísa úr sætum og taka þannig á móti gestum. 
 
Brúður gengur inn kirkjugólf til vinstri handar svaramanni sínum og sitja þau vinstra megin í kór kirkjunnar, gegnt brúðguma og svaramanni hans. Hjónaefnin sitja í sætum nær söfnuði. 
 
Eftir brúðarmarsinn er leikinn eða sunginn sálmur til helgunar brúðhjónum og þeirra athöfn. Þá flytur prestur bæn frá altari. 
 
Þá er aftur flutt tónlist eftir óskum brúðhjóna, sem þau velja í samráði við organista og prest. 
 
Þá ganga brúðhjón fram fyrir altari þar sem prestur flytur ávarp til þeirra og les úr ritningunni um hjónabandið og sambúð læriveinanna. Þar á eftir fylgir hjónavígslan sjálf með spurningum til brúðhjóna það er vígsluheiti. Þá er handsal sáttmálans, yfirlýsing, bæn og blessun. Séu hringar settir upp í athöfninni eru þeir settir upp fyrir handsal. Brúðhjón krjúpa undir bæninni. Þá rísa brúðhjón upp og óska hvort öðru til hamingju með kossi og ganga síðan til sæta. Brúðurin í sama sæti og áður og brúðgumi við hlið hennar. Svaramenn sitja nú gegnt brúðhjónum. 
 
Eftir vígsluna er flutt tónlist og síðan ganga brúðhjón úr kirkju og er brúður brúðguma til hægri handar. 
 
Hjónavígsla getur einnig farið fram í almennri messu safnaðarins. Tónlist, sem er valin til flutnings í athöfninni þarf að hæfa tilefninu og helgidóminum. 
 
Af brúðarsálmum í sálmabók má nefna sálma nr. 260 - 265, 590, 716, 717. Einnig má nefna sálma nr. 4, 22, 26, 357, 533, 544, 545, 572, 701, 703, 712, 731, 732 og 747 - 752. 
 
Í sálmabók er einnig sérstök bæn hjónaefna fyrir vígslu.