Skírn

 

Skírn er innganga í kirkju Krists. Hún hefur tíðkast frá öndverðu í kristninni og er sáttmálstákn. Skírn er ekki einkaathöfn fjölskyldu, heldur athöfn kirkjunnar í heild. Þegar skírn fer fram utan guðsþjónustunnar, er kirkjan, söfnuðurinn, þó ekki fjarri. Þau sem eru viðstödd skírnarathöfn, eru fulltrúar kirkjunnar í heild og fyrir kirkjunnar hönd vottar að viðkomandi skírn. 
Foreldrar sýna börnum kærleika sinn og elsku með því að færa þau til skírnar. Þeir sýna einnig kærleika sinn í verki með því að láta ekki þar við sitja heldur axla þá ábyrgð sem skírn barnsins leggur þeim á herðar, að ala það upp í ljósi fyrirheita skírnarinnar, kenna því að elska Guð, tilbiðja hann, varðveita orð hans og sakramenti og þjóna náunganum í kærleika, eins og segir í ávarpi prestsins að lokinni skírninni. 
 
Kirkjan kemur til móts við foreldra með því að bjóða til barnastarfs í söfnuðinum. Það er gæfa margra barna að eignast í vöggugjöf trú á Guð og bænina. Börn sem læra vers og bænir, heima og í kirkjunni, búa að því allt lífið. Bænin er besta veganestið til lífsferðar. 
 
Hvað er skírn? 
Eftir upprisuna kallaði Jesús lærisveinana til fundar við sig í Galíleu. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt. 28. 18-20 Þessi hvatning Jesú er oft nefnd skírnarskipunin. 
 
Í henni býður Jesús lærisveinum sínum að gera alla að lærisveinum, hann segir þeim að skíra alla þá sem vilja verða lærisveinar hans og hann segir þeim að kenna öllum orð hans og vilja eins og við lesum í Biblíunni - í Nýja testamentinu 
 
Það er í boði Jesú sjálfs, samkvæmt orðum hans, að við látum skíra börnin okkar. 
 
Við skírnarathöfnina er einnig lesinn þessi texti: 
"Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma. Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau." - Mark 10. 13-16 
 
Barn er skírt af því að Guð elskar það og vill votta því elsku sína. 
Barn er skírt af því að foreldrar elska það og vilja fela það góðum Guði. 
 
Það er algengast að nafn eða nöfn barns sé nefnt fyrsta sinni við skírnina. Lög um mannanöfn marka umgjörð nafngjafa. Nauðsynlegt er að láta prest vita með góðum fyrirvara um nafn og nöfn skírnarvotta, sem eru tveir hið minnsta Ef nafn er ekki til á mannanafnaskrá er nauðsynlegt að sækja um leyfi fyrir því til Mannanafnanefndar, sem reynir að afgreiða málin snarlega.