Betra líf í Bústaðahverfi

 

Betra líf í Bústaðahverfi er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka í Bústaðahverfi. Samstarfsverkefni þetta hófst í janúar 1998. Hugmyndin að samstarfinu var var að taka höndum saman um forvarnarmál hverfisins, en þó fyrst og fremst fyrir börn og unglinga. 
 
Markmiðið með þessari vinnu er að börn í hverfinu á grunnskólaaldri verði vímuefnalaus, ætlunin er að byrja strax í leikskóla að innleiða ákveðinn hugsunargang, barnaskólar munu taka við og gagnfræðaskólarnir að síðustu. Ætlunin er að auka vellíðan barna og ungmenna, bæta mannlífið, auka samskiptin, draga úr og reyna að koma algjörlega í veg fyrir alla neyslu hjá börnum á þessum aldri. 
 
Ljóst er að forvarnarstarf verður ekki unnið án þátttöku heimila, en mikilvægt er að allir íbúar hverfisins taki þátt með beinum eða óbeinum hætti, séu meðvitaðir um stefnu hverfisins og geti stutt börn sín dáða. Til þess að auðvelda þátttöku allra hefur verið ákveðið að gefa út eigulega forvarnaráætlun með sameiginlegum markmiðum og leiðum til þess að ná þeim. Foreldrar og aðrir geta aflað sér þar upplýsinga um hvað sé í gangi og hvert sé hægt að leita sé þess þörf. 
 
Það er nauðsynlegt fyrir uppalendur og okkur sem vinnum með börnum og unglingum að við öll séum samtaka í að varða leið barnsins og unglingsins. Við viljum ekki og okkar börn lendi á villuvegi.