Eggið brotnar og hvað svo?

2010-03-09 15:00:00

Páskaegg og páskar hljómar saman. Súkkulaði og málháttur er spennandi blanda. Allir vilja og vonandi fá flestir. Svo eru enn aðrir sem tengja páska og skíði saman í eitt. Útivera, frí og ferðlög, spurning um veður og það hvort páskahret láti nokkuð á sér kræla.

Þetta er yfirborð páskanna, skurnin á egginu. Skurn sem frá náttúrunnar hendi er ofur sterk en getur brotnað við illa meðferð.
En hvað er þá inni í egginu sjálfu? Þar er líf og þar er framtíð. Páskaeggið er tákn um lífið. Fyrirheiti um líf sem muni vakna. En það þarf aðstæður til. Eggið þarf sitt umhverfi og sína hlýju.
 
Í öllum þessum tákrænu umbúðum býr helgur boðskapur páskanna. Allt er þetta ytra orðið til vegna orðanna sem hljóma og segja: „ Hann er ekki hér, hann er upprisinn.“
Undur lífs, sem er ofar mannlegum skilningi og verður aðeins tekið í trú. Lífið setjum við ofar anda og ljósi. Án lífsins verður hvorki ljósið eða andinn okkar. Lífið er stóra gjöfin, aðgöngumiði að öllu sem býr í deginum.
Við eigum lífið okkar en ekki líf annarra. Enginn má taka líf annarra og vanvirða það. Mansalsmálið, sem á dögunum var dæmt í, er ákveðinn sigur í baráttu um varðveislu lífsins. Í því máli hafði skurnin verið brotin og lífið tekið og svívirt á versta hátt.
Niðurstaða málsins er sigur fyrir Stígamót, sem lengi hafa haldið því fram að mansal væri stundað á Íslandi. Stígamót hafa lengi bent á brotin egg og líf sem tekið væri úr öllu kærleiksumhverfi og fært nauðugt inn í svívirðu og niðurlægingu.
Það er ekki nóg að telja Ísland land sátta og friðar. Öruggt land, þar sem lög og reglur eru virtar. Bitur reynsla hefur kennt okkur að hér eru menn, hingað komnir eða hér uppaldir, menn sem vilja brjóta skurnina og eigna sér líf. Í þessu sem öðru erum við Íslendingar fljótir að læra og því miður lært þessa skelflilegu iðju og gera að féþúfu.
Það er okkar frumskylda að varðveita lífið og standa saman um það. Það er ekki verk lögreglu eða Stígamóta að sinna því starfi ein og óstudd. Þjóðin öll verður að snúast til varnar lífinu. Varðveita skurnina og brjóta hana ekki nema við séum tilbúin og ábyrg í því að taka á móti nýju lífi. Lífi, sem Guð gefur fyrirheiti um að vera eilíft, þeim sem trúa á nafnið hans.
Lífið hefur aldrei verið einlitt, hvítt eða svart. Skuggar lífsins virðast á stundum saklausir og litlir en þeir megna oft að taka ljósið algjörlega frá fólki.
 
Þar hefur eggið brotnað í aðstæðum sem skapa ekki líf. Eggið má ekki brjóta, nema réttar aðstæður séu fyrir hendi. Allt líf þarf á umhyggju að halda. Það þarf hlýju, mjúkar hendur og aðstæður, sem taka á móti lífinu í trú. Þá vex það og dafnar.
Hátíð lífsins er framundan og þér er boðið til þátttöku að syngja Guði lof og dýrð fyrir sköpun hans alla og náð. Brjóttu ekki skurnina fyrr en aðstæður eru lífinu jákvæðar.