SÁLARFITTNESS OG NÝTT LÍF

2015-04-04 16:00:00

 

 

ER HAMINGJAN SPRETTHLAUPARI? Getur verið að hamingjan sé fljótari en þú? Sneggri í alla staði, liprari og stæltari? Fljótari að hugsa og framkvæma og þess vegna alltaf á undan þér?

 

SNEGGRI EN ÞÚ? Við erum endalaust að hlaupa með þá hugsun að ná að höndla hamingjuna. Okkur finnst hún rétt handan við hornið. En þegar við loks náum horninu finnst okkur hún stokkin af stað á ný. Þá er í okkar huga um tvennt að velja; hlaupa áfram eða sökkva í þær hugsanir að þetta sé vonlaust og við náum henni ekki.

 

HLAUPARI? Hamingjan er ekki hlaupari. Hvorki spretthlaupari eða langhlaupari. Ef þér finnst það er sá hlaupari í kollinum á þér. Hamingjan er alltaf nær en þið grunar. En því miður hlaupa margir framhjá henni. Gefa sér ekki tíma til þess að nema staðar og njóta.

 

HVER ER HÚN? Hamingjan er hvorki persóna eða staður. Hamingjan er tilfinning sem gefur þér sátt við lífið. Hún er hugarástand augnabliksins sem þú lifir í sátt við umhverfi þitt og sjálfa þig sem manneskju. Ef þú hleypur of mikið, liggur of mikið á, eru töluverðar líkur á því að fara á mis við hana. Þú hvorki sjáir hana né finnir.

 

SÁLARFITTNESS!

Þakkaðu þegar þú vaknar og heilsaðu deginum.

Gefðu þér tíma á morgnana, horfðu í spegil, heilsaðu sjálfri þér sem manneskju.

Búðu til augnablik, lokaðu augnunum, andaðu djúpt.

Segðu takk áður en þú hleypur af stað.

Hugsaðu um þau sem eru þér kær, sendu þeim góðar hugsanir.

Einsettu þér að gefa þeim bros, sem þú mætir á deginum.

Hugleiddu hvort eitt handtak, skref eða orð frá þér geti létt þeim gönguna.

Þakkaðu frekar en að bölva.

Horfðu á fegurðina sem birtist í litlu hlutnum.

Hrósaðu í stað þess að lasta.

Reyndu að sjá vonina í stað þess að finna að.

Reyndu að treysta í stað þess að efast.

Reyndu að taka Pollýönnu á erfiðleikana.

Gleymdu ekki að segja þeim sem eru þér kærust að þau skipti þig máli.

Það er ekki hættulegt að segjast elska einhverja manneskju.

Það er gott að elska.

Líkklæðin hafa enga vasa.

Orð í lífi og leik eru betri en orð í minningargrein.

Mundu að lífið er núna.

 

VEXTIRNIR. Þeir geta verið aðrir en Seðlabankinn ákveður. Þú getur ráðið þínum vöxtum í lífinu. Þú getur lagt inn og tekið út án þess að spyrja einn eða neinn. Í KÆRLEIKSBANKANUM ert þú bankastjórinn og líka formaður bankaráðs. Þú ræður streyminu og vöxtunum. Kærleiksbankinn þinn er nauðsynlegasti bankinn í öllum heiminum. Hann er ekki aðeins að gefa þér gleði og góða tilfinningu, því hann getur gefið öðrum hamingju.

 

ÞAKKAÐU FYRIR ÞIG. Áður en dagurinn er liðinn hvet ég þig til að segja eitt lítið takk áður en þú leggur þig á koddann. Hugsaðu um þau sem glöddu þig og líka þau sem voru þér öndverð. Sendu þeim öllum góðar hugsanir. Ef þú prófar þetta er ég viss um að draumar næturinnar verða hamingjuríkir og dagurinn sem á eftir fylgir meira spennandi. Svo getur þú hlaupið af stað því nú er hamingjan farin að vaxa í hjarta þínu fylgir þér hvert sem þú ferð.

Er það ekki það sem við öll viljum?