Kammermúsik

 

Kammermúsíkklúbburinn hefur flutt starfsemi sína í Hörpu
 
Kammermúsíkklúbburinn saga og tónleikaskrá. 
Kammermúsíkklúbburinn heldur tónleika í Bústaðakirkju að meðaltali fimm sinnum á vetri. Tónleikarnir fara fram á sunnudagskvöldum og hafa margir heimsfrægir listamenn komið fram á tónleikunum ásamt frábærum íslenskum listamönnum. 
 
Það kirkjunni heiður að fá að hýsa og njóta þeirra listaviðburða, sem klúbburinn gengst fyrir á hverju starfsári. Starf klúbbsins gefur nýjan tón í kirkjuna og minnir á þá samleið sem kirkja og listir eiga saman. 
 
Upphaf og saga Kammermúsíkklúbbsins. 
Kammermúsíkklúbburinn var stofnaður árið 1957 og hefur starfað óslitið síðan. Markmið hans hefur frá upphafi verið að fá færustu hljóðfæraleikara, sem völ er á hverju sinni, til að flytja kammertónlist, nánar tiltekið tríó, kvartetta og kvintetta. Einkum hefur klúbburinn einbeitt sér að flutningi strengjakvartetta, en það tónlistarform er talið gera hvað mestar kröfur til flytjenda. Mikið er til af slíkum verkum og hefur klúbburinn með markvissum hætti beitt sér fyrir flutningi á kvartettum helstu meistara sögunnar. 
 
Klúbburinn hefur notið fjárhagslegs stuðnings hjá ríki og Reykjavíkurborg, en að stærstum hluta byggir hann tilveru sína á traustum hópi félaga, sem greiðir árgjald í upphafi starfsársins. 
 
Framboð á tónlist hefur aukist gífurlega á undanförnum árum og víða má heyra kammertónlist flutta, gagnstætt því sem áður var, og er það vel. Samt sem áður teljum við Kammermúsíkklúbbinn nauðsynlegan burðarás við að koma þessari tónlist á framfæri. Tónleikar klúbbsins eru að jafnaði 5 á hverju starfsári. Þeir hafa verið afar vel sóttir og tekist með afbrigðum vel að dómi þeirra, sem á hafa hlýtt. Á hverju ári falla einhverjir út af félagaskránni, en sem betur fer bætast aðrir í hópinn, þannig að virkur félagafjöldi er milli 250 og 300. 
 
Félagsgjald í klúbbnum er óbreytt frá fyrra ári, eða 5.800 kr. á hvern félaga en aðgangur að einstökum tónleikum verður seldur á 1.800 kr. meðan húsrúm leyfir. Félögum er boðið að taka unglinga úr fjölskyldum sínum með sér á tónleika klúbbsins fyrir aðeins 500 krónur á mann. 
 
Reyndur tónleikagestur veit, að þótt völ sé á frábærum upptökum á tónlist, jafnast ekkert á við það að vera viðstaddur flutninginn þegar vel tekst til og vera virkur í þeim tengslum sem oft má finna milli flytjenda og áheyrenda. Vandaðar upptökur opna hins vegar leiðir til að kynnast tónlistinni enn betur og er því hægt að hlýða á verkin heima og búa sig þannig betur undir tónleikana. Góð kammertónlist er að margra dómi með því dýrasta sem kveðið er í veröld tónlistarinnar og gerir jafnframt kröfur til hlustandans um athygli og einbeitingu sem skilar sér síðan margfaldlega í ánægju og lífsfyllingu við nánari kynni. Verslunin “12 tónar” og tónlistarverslun Skífunnar veita félögum klúbbsins 15% afslátt af sígildu tónlistarefni og verslun Japis 10%. Þessum verslunum verður send félagaskrá klúbbsins í upphafi starfsárs og upplýsingar um breytingar þegar líður á veturinn.
 
Margir þeirra sem þetta lesa eru klúbbnum kunnugir, hafa e.t.v. verið virkir félagar eða sótt tónleika hans við og við. Eru þeir, sem og aðrir, hvattir til að efla kynni sín við klúbbinn með því að gerast virkir félagar og eru nánari upplýsingar veittar af neðanrituðum. 
 
Guðmundur W. Vilhjálmsson, Espilundi 11, 210 Garðabæ, s. 565 6028, netfang: gvilhj@itn.is  
 
Einar B. Pálsson, Ægisíðu 44, 107 Reykjavík, s. 551 6057 
 
Helgi Hafliðason, Stuðlaseli 44, 109 R., s. 557 4150 (h), 552 2149 (v), netfang: helgiha@simnet.is  
 
Runólfur Þórðarson, Hlíðarvegi 65, 200 Kópavogi, s. 554 0832, netfang: rthordar@centrum.is  
 
Sigurður Steinþórsson, Kaplaskjólsvegi 53, 107 Reykjavík, s. 552 6955, netfang: sigst@raunvis.hi.is  
 
Valdemar Pálsson, Einibergi 27, 221 Hafnarfirði,s. 555 3154 (h), 585 5690 (v), netfang: valdepal@centrum.is